Góði svefninn og pásurnar

Í nótt svaf ég ólýsanlega vel fyrir utan einu sinni þegar Kári vindur reif upp gluggann og sveiflaði honum til og frá. Ég sætti mig ekki við það og lokaði glugganum mjög ákveðin! Uppí rúm fór ég um ellefu leitið og stilti vekjaraklukkuna á átta því ég var nógu þreytt til að gefa mér það að ég mundi sofna strax sem þýddi að það væri ekki of snemmt að vakna klukkan átta. Vekjaraklukkan öskraði á mig klukkan átta eins og henni bar og ég vaknaði bara þokkalega hress, fann ekki neitt fyrir því að ég þyrfti eða langaði neitt sérstaklega að sofa áfram. Eins og fólk gerir, þá lokaði ég augunum en aðeins í þeim tilgangi að opna þau aftur, það kallast að depla augunum. Nema, þetta deppl varaði í klukkutíma og allt í einu var klukkan orðin níu og þá var ég sko búin að sofa nóg, ætlaði að fara á fætur og nýta daginn vel. Eins og asni deplaði ég augunum aftur og aftur leið klukkutími!

Ég veit hvernig þetta hljómar, en satt að segja var ég jafnhissa í bæði skiptin, klukkan 9 og klukkan 10 að ég hafi í alvörunni sofnað! Ég fann ekki fyrir því að ég hafi sofnað og þessir klukkutímar voru svo sannarlega fljótir að líða....

Ég er búin að lesa í Pride and Prejudice og The Collector til skiptis síðan ég vaknaði, engar rosalegar pásur, bara til að borða og til að taka pásu annað slagið og þá leifi ég mér ekki að lesa í þeirri von um að ég endist lengur við lesturinn í dag. Það er víst takmarkað hvað maður getur lesið og lært í sömu adrennu.

Núna er ég í einni pásunni, fékk mér pítsusneið af pítsunni sem ég bakaði mér í gær (mjög góð, spelt, kjúlli og grænmeti). Ég er að hlusta á Band of Horses sem er ein besta hljómsveit í heimi að mínu mati, lagið The Funeral er besta lagið í heimi! Það er bara þannig.

Í þessum pásum mínum ákvað ég að gera eitthvað annað og uppbyggilegra en að fara á facebook þó ég hafi gert all mikið af því í dag, ég kíkti á heimasíðu Háskóla Íslands til að skoða hvað væri í boði og hvað stúdentaíbúðir kosta og ýmislegt. Það sem vakti áhuga minn var Austur- Asíufræði en það er bara 60 eininga aukafag. Það er svosem allt í lagi. Skiptir mig eiginlega engu máli, ég er ekkert að fara í það fag hvort eð er. Ég ætla í sálfræðina en það er alltaf gaman að sjá hvað er í boði, kannski að maður kíki á einhver námskeið bara sér til ánægju og til að svala óútskýranlegri forvitni. Ég hef mikinn áhuga á Asíu.

Um þessa helgi ætla ég að klára enskuna eins og hún leggur sig, þá get ég lagt hana til hliðar og einbeitt mér að öðrum fögum. Fyrir lokaprófið 12. maí mun ég líta yfir dásamlegu glósurnar mínar og brillera!

Gott hjá mér Joyful


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband