Næsti vetur +

Já þá er ég aftur komin í þá stöðu að ég get ekki ákveðið hvað mig langar að gera, hvað ég ætla að gera og hvað ég ætti að gera. Mig langar í heimspeki en mig langar líka í ljósmyndun og annað listnám. Ætti ég að fara í heimspeki af því að það er háskólanám? Mig langar alveg í sálfræði, ætti ég þá að fara í það vegna þess að það er líklega praktskast og öruggast hvað varðar atvinnu? Mamma sagði að hún þekkti ljósmyndara sem fá enga vinnu, hvað segir það mér samt? Ég var alin upp við þá hugmynd að ég ætti að gera það sem ég er góð í, að ég ætti að rækta mína hæfileika og að ég gæti allt sem ég vildi ef ég vildi það nógu mikið. Ja, hvort sem ég var beinlínis alin upp við það eða bara fundið þessi heilræði einhvers staðar á lífsleiðinni skiptir ekki öllu máli. Ég trúi þessu ennþá, er ég barnaleg? Óraunhæf? Of bjartsýn? Pollýanna?

Ef ég fer að vinna venjulega 8-16 vinnu þá missi ég heila 8 tíma af deginum mínum í tekjuöflun og mjög líklega í vinnu sem gefur mér sama sem ekkert, þess vegna vil ég ekki fara í vinnu. Ef ég fer á námslán þá er ég að safna skuldum og skuldir eru slæmar blablabla!! Mér er svo óendanlega illa við það þegar fólk segir að námslán séu dýr og óhagstæð og ekki besta lausnin! Hvað á ég að gera? Ég er 23ja ára einstæð móðir, tekjulaus og ekki búin með stúdentinn. Ég er að vinna í stúdentinum en hann er endalaust langur, það er engin afsökun, ég á að vera löngu búin með hann en af einhverjum ástæðum er ég bara ekki búin með hann og ég hef minnstar áhyggjur af honum! Hann kemur þegar hann kemur og ekkert meira með það!

Listamaður, gæti ég orðið listamaður? Hvað er að vera listamaður? Hvernig fær maður tekjur til að lifa af þegar maður er listamaður? Eru til "öryggis"bætur fyrir þá sem kjósa að starfa í listamannabransanum sem er talinn óöruggur bransi, engin mánaðalaun eða tímakaup heldur færðu borgað eftir smekk almennings og athafnasemi. En ef þú verður veik/ur, hvað geriru þá sem listamaður?

Það er sköpunarkraftur inní mér sem hefur verið að gerjast í þó nokkur ár, ég finn það vel að hann er á barmi sprengingar! Endalausar hugmyndir, endalaus orka og endalaus hvatning frá umhverfinu sem gefur mér hugmyndir og orku en á móti kemur tímaleysið, tekjuleysið, stúdentsleysið og samfélagsformpressan sem er ekki til í minni stærð!

Rithöfundur; hvað þarf ég til að verða rithöfundur? Ég tel mig vera komna yfir þann hugsunarhátt að ég þurfi bara að kunna að skrifa orð. Það hlýtur að vera svo miklu meira á bak við þetta. Ritlist, tími og skipulag til að missa ekki niður söguþráðinn, sérstakur vinnutími. Er nokkuð hægt að vera 23ja ára óstúdent einstæð móðir sem ætlar að setjast niður til að skrifa fyrstu bókina sína til að gefa út til að afla tekna til að geta boðið litla barninu sínu það sem það þarf og kannski aðeins meira? Nei, örugglega ekki en af hverju ekki? Hvað þarf ég meira að vita, hvað þarf ég að læra og hvar læri ég það? Við hvern á ég að tala? Vil ég vera rithöfundur? Í hverju felst það í raun og veru að vera rithöfundur? Hvers konar lífi lifa rithöfundar?

Hverju þarf ég að passa mig á? HverjUM þarf ég að passa mig á? Ég bý enn í foreldrahúsum sökum fjárskorts og tel mig ekki vera hæf til að "sjá um mig sjálf" í heimi lista- og bókmenntastarfsheiminum.

Hvað á ég að gera? Af hverju er ég svona tvístígandi á því hvort ég eigi að fara í háskólann í haust? Hvað annað er ég að pæla í að gera? Eitthvað verð ég að gera ekki satt, eða hvað? Af hverju má ég ekki bara gera ekki neitt? Æj, ég veit, ég veit, það er kjánaleg spurning, ég get hvort eð er ekki gert ekki neitt, það er mér alveg ómögulegt, sem er fínt því mér leiðist aldrei...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband