Færsluflokkur: Menntun og skóli

Öfgar stressins

Ég fór uppí rúm um ellevuleitið í kvöld því ég var að missa vitið af þreytu en gat engan vegin sofnað, ég var með samviskubit yfir því að vera þreytt. Ég hef svo oft heyrtum 'all-nighter' og hef einu sinni eða tvisvar reynt það en það hefur sínar afleiðingar og kemur bara út á eitt. Mér finnst að ég ætti samt að geta pínt sjálfa mig meira en ég get. Vakað meira en ég get. Lært meira en ég get. Til að gera það sem ég þarf að gera. Ég lít svo á að þetta sé mitt seinasta tækifæri til að útskrifast úr menntaskóla. Ég er líka búin að auglýsa það að ég sé að útskrifast og búin að fá hljómsveit í veisluna. Núna þegar tæplega tvær vikur eru í fyrsta prófið finnst mér þetta allt í einu svo yfirgengilega mikið, ég finn svo ofboðslega mikið fyrir pressunni sem fylgir því að ég megi ekki veikjast, ég má ekki missa mig í neinu sem mér þykir skemmtilegt, ég má ekki vera að því að lifa lífinu eða sinna Kormáki (sem er í pössun á daginn og hjá mömmu minni eða pabba sínum á kvöldin á meðan á þessu stendur). Mér finnst þetta svo stórt, það er að fara að koma að þessu. Endirinn er rétt handan við hornið og þá má ég leifa mér að fá spennufall, leifa mér að verða eirðarlaus, leifa mér að vera löt, borða nammi, drekka gos, fara í ræktina og vera þar í marga klukkutíma, fara í sund og svífa í vatninu eins lengi og opnunartíminn leifir. Ég má fara á bókasafnið og ná mér í hvaða bók sem er og lesa hana á mínum hraða, ég þarf ekki einu sinni að vita um hvað bókin er. Ég má byrja að hugsa um það sem ég hef áhuga á. Ég get farið að njóta þess betur að vera mamma. Ég get farið með Kormák að gefa öndunum. Ég get sett neglur á systur mína og mömmu. Ég get horft tímunum saman á hvítu fallegu útskriftarhúfuna mína. Ég get heimsótt vinkonu mína sem er nýbúin að eignast lítið stúlkubarn með unnusta/kærasta sínum og ég get heimsótt hana Heiðdísi vinkonu mína sem ég sakna svo mikið!

Ég er búin að vera með ónot í maganum í allan dag (eftir hádegi) og vott af flökuleika og reglulegan hausverk og....

Það var ótrúlega gott að skrifa þessa færslu, leifa mér að dreyma aðeins um hvað sé handan við þennan yfirgnæfandi tíma, þessar næstum óbærilegu tvær til þrjár vikur.

Ég ætla að halda áfram að lesa þangað til samviskubitið yfir því að hafa verið þreytt áðan fer. 


Sko mína!

Búin með öll verkefnin, seinasta verkefnið fæ ég reyndar 28. apríl en það er úr ensku og er fljótunnið, get satt að segja ekki beðið eftir því verkefni! 

verk

 

 

 

Ljúkissu! Ljúkissu!!!


Skipulag

Búin að búa til skipulag fyrir næstu tvær vikurnar og það leggst vel í mig, allt annað er að ganga vel og meira að segja stærðfræðin.

Heyri þá bara í ykkur seinna.


Helgakviða hundingsbana

Í dag kláraði ég seinasta verkefnið úr íslensku en það var úr Helgakviðu Hundingsbana. Ég átti að útskýra eitt kvæðið og undirstikuðu orðin:

Svo bar Helgi

af hildingum

sem íturskapaður

askur af þyrni

eða sá dýrkálfur

döggum slungin

er efri fer

öllum dýrum

og horn glóa

við himin sjálfan. 

En hér er Sigrún, ekkja Helga að tala við Dag bróður sinn sem var kominn til hennar að segja henni að hann hefði banað Helga því hann drap Högna föður þeirra í orrustu. (Og hinn bróður þeirra) Þetta er hrein ástarjátning á Helga að hann sé toppurinn á tilverunni. Hann er bestur af þeim bestu og er lang fallegastur eins og Askur Yggdrasill er fallegastur með þyrni sina og hjartardýrið sem er þakið döggvum, hjartardýrið er hæst setta dýrið í dýraríkinu (samkvæmt þessu) að hornin glóa/ná við himininn. Eftir að hafa stúderað þessi kvæði finnst mér ég vera bættari manneskja. Ég komst í gegnum þennan þykka vef torskildra orða og orðasamsetninga og það besta er að mér tókst að skilja þetta svo vel að mér líkaði við söguna í heild sinni.

Til hamingju ég!

Góða nótt 


Afrakstur og fleira

Í dag kláraði ég íslenskuverkefni, ritgerð og tvö spænskuverkefni! Á morgun læri ég eðlisfræði með Valborgunni minni og svo seinna íslensku og hugsanlega landafræði með Kristínu skólasystur minni en við erum fyrir tilviljun saman í spænsku, íslensku og landafræði.

Ég skrifaði áðan ansi góða færslu um það sem ég gerði í dag en það var meðal annars um rithöfundinn Isabel Allende en svo strokaðist allt út! Arg!


Nú líður mér vel...... AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA (sjokk)

Þegar ég kom heim áðan leið mér svo vel, ég var ánægð með afrakstur dagsins því ég lærði vel. Ég lærði nýja hluti og kom miklu í verk. Auk þess fékk ég mér langan skokk/labbitúr frá Perlunni heim en ég var í um 50 mínútur á leiðinni. Hvað sem það þýðir. Ég er ekki búin að reikna vegalengdina. 

Ég er vel á veg komin með spænskuverkefnin sem eru í verkefnahólfinu á námsnetinu og þegar ég kíkti aftur í verkefnahólfið núna rétt áðan var heldur betur búið að bætast í og fyrstu viðbrögð voru ekki beint þæginleg. Þegar ég var búin að skoðaða verkefnin gat ég aftur andað rólega (ýking). Þetta eru ekkert hættuleg verkefni og ég veit að ég klára þau á nótæm, fyrir utan að skilafresturinn er frekar langur (en það borgar sig að klára þau sem fyrst).

 VERKEFNI 


Til hamingju

images (83)

Dagurinn legst vel í mig og ætla ég að stúdera Brennu-Njáls sögu, stærðfræði og spænsku. Hafið það sem allra best sjálf Smile .

Jú, auðvitað, það sem gerir þennan dag sérstakari en aðra daga er það að fósturpabbi minn eða stjúpi á afmæli í dag. Hann er á seinni aldarhelmingi sínum og miðað við allt og allt held ég að það sé mjög góður aldur. (Ég hlakka allavega til að komast þangað Joyful)

 

Til hamingju með daginn Dóilingur LoL


Allt gott takk fyrir en þú?

Ég segi allt gott í dag, en þú?.
Vann í söguritgerðinni soldið fram á nótt í gær og vaknaði svo 40 mínútum seinna í morgun en vanalega en það var allt í lagi. Kormákur var einstaklega hress og kátur í morgun, tók maukmorgunmatinn sinn og labbaði sér bara upp til ömmu sinnar og sagði "nammnamm". Hann er duglegur litli gullmolinn minn.

Ég sæki hann kl 15:30 í dag og þá held ég að við munum skemmta okkur við að taka aðeins til af því að ég er búin með lærdóm dagsins. Það þýðir samt ekki að ég ætli ekki að læra meira í dag. Ég ætla að stúdera spænskuna, gera smá skipulag í sögunni og lesa nokkra kafla í enskunni.

Það er svo gaman þegar það gengur svona vel!
Flott hjá mér!


Alls konar góð niðurstaða...

Dagurinn byrjaði ekki vel því ég var lengi að koma mér af stað en það hafðist þó að lokum, ég kláraði allan undirbúning við ritgerðina, púslaði henni lauslega saman, las nokkra kafla í Pride and Prejudice og nokkrar blaðsíður í spænskunni.

Ég er búin með allt sem ég þarf að læra fyrir daginn í dag sem veitti mér smá svigrúm til að búa til þæginlegt yfirlits-skipulag fyrir apríl og maí. Það skipulag lítur vel út og gefur mér ótrúlega góða tilfinningu fyrir verðandi markmiði mínu; hvítu húfunni!Tounge

Í dag hef ég fundið fyrir margs konar andstæðum tilfinningum á sama tíma, ég var södd og svöng á sama tíma, ég var stressuð og kvíðin í bland við að vera frekar niðurdregin og sama um allt en á sama tíma ferlega ánægð með sjálfa mig og lífið. Til að missa ekki algerlega stjórn á mér talaði ég við pabba og Maríu frænku á msn um allt og ekkert. Það hjálpaði mér að einangrast ekki. Ég sagði þeim til dæmis hvað ég væri að læra og hvað það væri stutt í prófin og svona ýmislegt sem í rauninni skipti ekki máli, en það hjálpaði.


Það hafðist

Jæja, þá hafðist það að ég kláraði það sem ég ætlaði að klára, ég lærði fyrir próf, kláraði verkefni í ensku, las og glósaði Völuspána svo vel að ég þarf ekki að stúdera hana aftur öðruvísi en að rétt renna yfir hana fyrir próf og svo kláraði ég næstum ritgerð um heimsendispár í gamla daga (eða fyrir 1900). Á morgun fer ég á bókasafnið að leita mér að heimildum um heimsendi í bókstaflegum bókum því það er í tísku að þurfa að nota alvöru bækur sem heimildir. Ekkert að því, bækur eru eitt af því fallegasta sem til er.

Þau fög sem ég tel mig vera örugga um að ná eru enskan, íslenskan, landafræðin og sagan. Stærðfræðin, eðlisfræðin og spænskan eru í mestri áhættu. Annað er það ekki, sem betur fer!

Ég er ofsalega sátt við sjálfa mig og lífið núna. Mér finnst ég vera á réttri braut í lífinu þó ég sé ekki alveg á þeim stað sem mig langar að vera á, sem mér þætti gaman og ánægjulegt að vera á en ég fer að komast þangað mjög bráðlega og ef það væri ekki fyrir allt yndislega fólkið í kringum mig þá væri ég ekki á næstum eins góðum stað í lífinu. Ég er ævinlega þakklát!

Ég vil sérstaklega þakka mömmu minni fyrir að vera... bara sú sem hún er, hún er sennilega akkúrat sú mamma sem hentar mér best til að ég nái að gera þá hluti sem mér eru "ætlaðir"! Pabbi hefur líka gert sitt, heldur betur! Já, ótrúlegt en satt, þau eru örugglega mjög nálægt því að vera svo fullkomin blanda af svipuðum andstæðum sem skilar sér í frábærlega skrautlegu en góðu uppeldi. Án þeirra væri ég ekkert ;)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband