Öfgar stressins

Ég fór uppí rúm um ellevuleitið í kvöld því ég var að missa vitið af þreytu en gat engan vegin sofnað, ég var með samviskubit yfir því að vera þreytt. Ég hef svo oft heyrtum 'all-nighter' og hef einu sinni eða tvisvar reynt það en það hefur sínar afleiðingar og kemur bara út á eitt. Mér finnst að ég ætti samt að geta pínt sjálfa mig meira en ég get. Vakað meira en ég get. Lært meira en ég get. Til að gera það sem ég þarf að gera. Ég lít svo á að þetta sé mitt seinasta tækifæri til að útskrifast úr menntaskóla. Ég er líka búin að auglýsa það að ég sé að útskrifast og búin að fá hljómsveit í veisluna. Núna þegar tæplega tvær vikur eru í fyrsta prófið finnst mér þetta allt í einu svo yfirgengilega mikið, ég finn svo ofboðslega mikið fyrir pressunni sem fylgir því að ég megi ekki veikjast, ég má ekki missa mig í neinu sem mér þykir skemmtilegt, ég má ekki vera að því að lifa lífinu eða sinna Kormáki (sem er í pössun á daginn og hjá mömmu minni eða pabba sínum á kvöldin á meðan á þessu stendur). Mér finnst þetta svo stórt, það er að fara að koma að þessu. Endirinn er rétt handan við hornið og þá má ég leifa mér að fá spennufall, leifa mér að verða eirðarlaus, leifa mér að vera löt, borða nammi, drekka gos, fara í ræktina og vera þar í marga klukkutíma, fara í sund og svífa í vatninu eins lengi og opnunartíminn leifir. Ég má fara á bókasafnið og ná mér í hvaða bók sem er og lesa hana á mínum hraða, ég þarf ekki einu sinni að vita um hvað bókin er. Ég má byrja að hugsa um það sem ég hef áhuga á. Ég get farið að njóta þess betur að vera mamma. Ég get farið með Kormák að gefa öndunum. Ég get sett neglur á systur mína og mömmu. Ég get horft tímunum saman á hvítu fallegu útskriftarhúfuna mína. Ég get heimsótt vinkonu mína sem er nýbúin að eignast lítið stúlkubarn með unnusta/kærasta sínum og ég get heimsótt hana Heiðdísi vinkonu mína sem ég sakna svo mikið!

Ég er búin að vera með ónot í maganum í allan dag (eftir hádegi) og vott af flökuleika og reglulegan hausverk og....

Það var ótrúlega gott að skrifa þessa færslu, leifa mér að dreyma aðeins um hvað sé handan við þennan yfirgnæfandi tíma, þessar næstum óbærilegu tvær til þrjár vikur.

Ég ætla að halda áfram að lesa þangað til samviskubitið yfir því að hafa verið þreytt áðan fer. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Stutt eftir í stúdentinn, haltu þetta út. Það verður hvort eð er skítaveður út maí (líka þann sjöunda).

Berglind Steinsdóttir, 21.4.2011 kl. 09:05

2 identicon

Haltu áfram að vera dugleg dúllið mitt! Hef óendanlega mikla trú á þér :*

Lára María (IP-tala skráð) 21.4.2011 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband