Færsluflokkur: Heilbrigðismál
Fimmtudagur, 30. júní 2011
Óvenjulegt stress
Já, það má segja að ég sé að upplifa alveg óvenjulega undarlegt stress, ég sef ekki. Ég vaknaði kl 15 á þriðjudaginn var og ekki söguna meir! Nei, ég sofna ekki! Mun sennilega gera það á endanum. Margt og mikið sem hægt er að gera á öllum þessum tíma en skapið verður svolítið brothætt og sjálfsmyndin sömuleiðis. Kannski er þetta ekki stress, kannski er þetta kvíði eða öllu heldur valkvíði um "hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór"! Það er svo margt sem mig langar að læra og það versta er að ég er með allt aðrar og þá meina ég ALLT AÐRAR hugmyndir en ég hafði bara fyrir örfáum vikum, hvernig veit ég að ég skipti ekki algerlega um skoðun eftir aðrar örfáar vikur? Og hvað þá? Á ég þá bara að dúsa í því námi eða á ég að skipta? Og hvað ef ég fæ algjört ógeð á því? Nú er ég komin með barn uppá arminn og þá er ekki svo sjálfsagt að dingla sér svona í náminu. Hvað er til ráða? Hvað á ég að gera? Á ég að fara auðveldu leiðina, fara í heimspeki, ég er nokkuð viss um að ég fái seint leið á því fagi svo það eru mestar líkur á því að ég klári það nám frekar en nokkuð annað.
Ég sit útí garði með tölvuna og er að reyna að tala mig til þess að fara að læra en það gengur illa, ég er svo þreytt en nú þýðir það ekkert, ég verð að skila ritgerð og heimadæmi helst núna og svo kemur vinkona mín í neglur milli 10 og 11. Á svona stundu langar mig helst til ömmu og afa, að fá afasamloku. Ætli þau séu vöknuð?
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Áhrif
Um leið og ég var búin að skrifa færsluna tók ég inn lyfið og fann mjög fljótlega fyrir mun. Ég gat lesið hraðar án þess að þurfa að einbeita mér að muna það sem ég var að lesa, ég mundi það. Ég þurfti ekki að einbeita mér að hverju orði fyrir sig, ég gat rennt mjúklega yfir textann eins og hann væri heild, sem hann er. Engin orð sem ég gat ekki séð fyrir mér trufla mig lengur, ég þarf ekki að sjá textann fyrir mér í myndrænu formi, það er nóg að sjá orðin og þá skil ég.
Þó það sé gaman að sjá fyrir sér það sem maður les þá getur það verið svo rosalega tímafrekt, sérstaklega þegar orð eins og "hesturinn hoppar yfir grindverkið" kemur. Ég get ímyndað mér hest hoppandi yfir grindverk, ekkert mál en orðið "yfir" stoppar mig! En ekki lengur
Mér líður eins og ég sé að sjúga inní mig vitneskju um eitthvað ákveðið efni sem einfaldlega hlaðast upp í þeirri röð ég les það. Það er komið inn og ég þarf ekki að hafa fyrir því.
Ég ELSKA að lesa og ég hata þegar mér finnst það erfitt!
Ég er einbeittari og skarpari, ég náði þokunni
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. mars 2011
ADHD
Í morgun gleymdi ég að taka lyfin, ég áttaði mig ekki á því strax en það var eitthvað öðruvísi, ég hélt kannski að ég hefði sofið illa en ég gerði það ekki.
Það var eins og einhver væri inní hausnum á mér að segja mér að hugsa eitthvað annað, þessi einhver var jafnvel að tala við mig, ekki með orðum, ég heyri ekki í neinum en ég var ekki á staðnum, þessi einhver var fyrir mér, það var ekki pláss fyrir mig í mínum eigin heila/hug.
Ég las og las, ég skildi hvert orð og ef það kom orð sem ég skildi ekki þá tók ég eftir því að ég skildi það ekki, leitaði að því í orðabók og glósaði og svona gekk það í nokkra stund en ég þurfti virkilega að hafa fyrir því að muna hvað ég var að lesa, það var virkilega erfitt, stöðugt að hugsa til baka, rifja upp hver sagði hvað, við hvern, hvað gerðist, af hverju eitthvað gerðist í samhengi við það sem áður hafði gerst og ég fékk hausverk.
Myndræn lýsing á þessarri tilfinningu er eins og það sé móða inní hausnum á mér og ég ræð ekki við hana, ef ég reyni að grípa í hana til að koma henni fyrir á réttum stað eða til að hafa stjórn á henni þá fer ég bara í gegnum hana, ég næ henni ekki. Ég gefst upp á að reyna að hafa stjórn á þokunni og viðurkenni vanmátt minn gagnvart henni og fyrir vikið finnst ég vera hálfgerður vitleysingur, vitleysingur er ekki beint rétta orðið. - Ég er eins og hundur í ól, ég ræð ekki hvert ég fer, ég get ekki losað ólina, ég er föst, undir einhverjum komin sem hefur valdið yfir mér og í vonleysi mínu sætti ég mig við það...
Ég ætla ekki að sætta mig við þetta!