Færsluflokkur: Íþróttir
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Ég er víst fullkomin... já svo er nú víst.
Rétt er það. Ég á víst að heita fullkomin, ég meina, mér er sagt að ég eigi eftir að þroskast smá, ekki mikið held ég. Ég er nánast fullkomin og þá er sko vægt til orða tekið. Nei ókei, ég er ekkert egó. Fannst bara tilvalið að byrja grein dagsins á smá ýkjum. Ég hef sem sagt verið í miklu basli með sjálfa mig eins og flestir held ég einhverntíman á lífsleiðinni og ég virðist ekki ætla að hætta í þessu basli nema hvað að það virðist enginn vita hvað amar að! Amar þá eitthvað að? Ég þarf bara að stunda sjúkraþjálfun af kappi núna, fá eitthvað plan og fylgja því eftir. Ég er engin aumingi þó ég geti ekki hreyft mig, þarf bara að fá smá spark í rassinn, ekki fast, rófubeinið er eitthvað að ibba sig, og svo verð ég bara að vera dugleg að halda mér við með því að fara í ræktina. Já svona er þetta hjá okkur gamla fólkinu. Lífið er enginn dans á rósum eins og hún góðkunningjabestavinkona mín tók til orða og bætti svo við "en við getum alltaf keypt rósir og dansað á þeim!" LOL húmor hér á ferð. Góður, Kristín, góð! Jæja, á morgun ætla ég að drulla mér í jóga í jógasetrinu við Engjateig og vona að þar öðlist ég bæði andlegt og líkamlegt jafnvægi. Ef ekki þá held ég bara áfram að leita eins og glorsoltinn hundur í mataraleit.
Nei nú ýki ég aðeins, jógað muuun virka, ég geri mér bara alls alls alls engar vonir og þá verð ég alls alls alls ekki fyrir vonbrigðum. Mikið er ég þroskuð.
Sumarið hjá mér verður ansi margslungið. Næsta þriðjudag byrja ég í sjúkraþjálfuninni minni elskulegu, stunda hana af kappi og þugnaði. Fer á roskilde festival í júlí, þaðan fer ég niður til rómar og verð þar í viku. Júní fer sem sagt í sjúkraþjálfun og jóga. Vonandi líka eitthvað meira, sem ég veit alls ekki hvað gæti verið, en... og júlí verður bara flakk og dúllerí og auðvitað sjúkraþjálfun og svo líkamsrækt, helst með einkaþjálfara í tvær vikur eða svo (veit ekki) og vænti þess að fá mér vinnu, helst á leikskóla, í ágúst. Byrja á 50% og svo mun ég auka við mig ef ég treysti mér til. EN... ég er ekki búin, auðvitað er nám inní myndinni. Þó að mamma vildi helst að ég færi í myndlistaskólann í reykjavík og pabbi að ég tæki 3-4 fög í dagskóla, hvar sem er í hvaða námi sem er (skiptir hann þannig séð engu máli) og ekki vinna með, þá ætla ég í tvö fög í fjarnám í fjölbrautaskólann við ármúla og sjá svo til eftir áramót hvort ég treysti mér að ganga í skóla úttroðinn af gelgjum og unglingum. Ég er með vott af unglingafóbíu sem ég er að vonast til að þroskist af mér.
Markmið mitt núna fram að ágúst er að koma mér í reglulega hreyfingu og sæmilegt form sem ég get unnið upp sjálf (án sjúkraþjálfara) og markmið mitt út þetta ár er að klára tvö fög í fá. Ég dekra alveg við mig með því að leggja svona lítið á mig! Ég ætla að byrja hægt og næsta ár verður brillerað. Ég er full af bjartsýni og tilhlökkun um að gera líf mitt líkamlega þæginlegra.
Takk fyrir mig og verði þér að góðu!
svavs
Íþróttir | Breytt 6.6.2007 kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)